Á sýningunni ‘Leppar, pungur og skjóða’ sækir Guðlaug Mía Eyþórsdóttir innblástur í íslenska þjóðmenningu og sýnir ný verk byggð á nærumhverfi Íslendinga fyrri alda. Hver eru þau form, áferðir og gjörðir sem hafa fylgt okkur í gegnum tímans rás? Getur myndlistarmaður á 21. öld tekið upp þráð fyrri tíma?
Í myndlist sinni skoðar Guðlaug skúlptúríska þætti í manngerðu umhverfi okkar og gerir tilraun til að afbyggja merkingu forms og innihalds til að skapa möguleika á nýjum skilgreiningum og sjónarhornum áhorfenda.
Guðlaug Mía Eyþórsdóttir (f.1988) útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og stundaði síðar meistaranám í myndlist við Koninklijke Academie í Gent, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2018. Guðlaug hefur staðið að margvíslegum verkefnum innan myndlistar og brugðið sér í hlutverk útgefanda, sýningarstjóra og rannsakanda. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis.