Berglind Jóna Hlynsdóttir hefur verið að rannsaka Hamraborgina og sögu hennar um árabil. Föstudaginn 26. Ágúst kl 16:15 opnar nýtt verk Hamraborgin Fjöleignarhús í Y Gallerí og víðar í almenningsrýmum Hamraborgarinnar sem stendur til 11. september. Verkið teygir sig um húsið með hljóðverki þar sem áhorfendur fara í göngu um bygginguna. Í verkinu er það Hamraborgin sjálf sem mætir okkur sem sögumaður, hún rammar inn sögu sína og tíðarandann. Einar Örn Benediktsson og Kaktus Einarsson búa til hljóðmynd fyrir verkið og Thelma Marín Jónsdóttir ljáir Hamraborginni rödd sína. Verkið er hluti af Hamraborg Festival sem teygir sig um allt húsið 26-28. Ágúst. Berglind er heiðurslistamaður hátíðarinnar.
Verkið byggir á grunni þeirra rannsóknaraðferð sem Berglind hefur þróað í hljóð innsetningum í almenningsrýmum frá 2010 og er umfangsmesta verkið til þessa. Verkið er margþætt innsetning og inngrip í Hamraborginni sjálfri og umhverfi hennar. Verkið byggist í kringum staðbundið hljóðverk sem blandar saman performance, tónverki og leiðsögn. Hamraborgin sjálf talar í verkinu og leiðir þig á milli staða, á ákveðnum stöðum í húsinu koma uppbrot sem verða á vegi áhorfenda. Áhorfendur hefja för sína í innsetningu í Y-gallerí, sem er staðsett í gömlu Olís stöðinni í bílakjallaranum, fara svo þaðan í göngu sem hefst í bílastæðakjallaranum, hjá gamla þvottaplaninu, að gamla bílastæðavarða húsinu og þaðan svo um Hamraborgina alla. Verkið er framhald af verkinu Hamraborgarrásin sem sýnt var í Gerðarsafni í Mars 2021 sem fjallaði um hina sögufrægu sjónvarpstöð sem var starfrækt af húsfélaginu.
Verkið er styrkt af Myndlistarsjóði, Vinnuföt ehf. og Hamraborg Festival. Verkið er unnið í samstarfi við Y Gallery, Hamraborgar Festival, Mekó og Gerðarsafn.