Sigurður Árni Sigurðsson

Sigurður Árni Sigurðsson hefur starfað sem myndlistarmaður bæði í Reykjavík og í Frakklandi frá því að hann lauk námi frá Institut des Hautes Études en Art Plastiques í París árið 1991. Hann hefur haldið tugi einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Verk eftir Sigurð Árna er að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi sem og í opinberum söfnum og einkasöfnum víða í Evrópu.

 

Af stærri opinberum verkum má nefna útilistaverkið „Sólalda“ sem hann  gerði fyrir Sultartangavirkjun og var afhjúpað árið 2000, verkið “Samhengi” var sett upp í Landsbanka Íslands í Reykjavík 2005, glerverkið “Ljós í skugga” á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 2006 og útilistaverkið „L´Eloge de la Nature“ er staðsett í bænum Loupian í Suður-Frakklandi 2011.

 

Sigurður Árni var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum á Ítalíu árið 1999 og þegar Reykjavík var menningarborg Evrópu árið 2000 var verk eftir Sigurð Árna valið sem táknmynd menningarársins. Hann var jafnframt valinn bæjarlistamaður Akureyrar árið 2000 – 2001.

 

Sigurður Árni hefur starfað sem gestakennari við Listaháskóla Íslands og í listaháskólum í Frakklandi.