Emma Heiðarsdóttir

Emma Heiðarsdóttir (f. 1990) er myndlistarmaður sem býr og starfar í Reykjavík. Hún nam myndlist við Listaháskóla Íslands og Konunglegu listaakademíuna í Antwerp. Verk Emmu verða gjarnan til út frá hugleiðingum um breytileg mörk skúlptúrs og arkitektúrs, listar og lífs. Verkin eru unnin í fjölbreytta miðla og eiga það til að snúa upp á viðtekna sýn okkar á umhverfið. Árið 2020 hlaut hún tilnefningu til Hvatningarverðlauna Íslensku Myndlistarverðlaunanna. Verk Emmu hafa meðal annars verið sýnd í i8 Gallery, Listasafni Reykjavíkur, Gallerí Úthverfu, Kling & Bang og Gerðarsafni.